Hoppa yfir valmynd
19. september 1996 Matvælaráðuneytið

Heildarathugun á sæstrengsmálinu

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 19/1996


Á undanförnum árum hafa farið fram viðræður milli íslenskra aðila og orkufyrirtækja í Evrópu um hugsanlega lagningu sæstrengs milli Íslands og grannríkja í Evrópu. Meðal þeirra aðila sem sýnt hafa málinu áhuga eru umhverfis- og orkumálaráðherra Hamborgar og orkufyrirtæki borgarinnar (HEW). Í heimsókn Finns Ingólfssonar, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem var í boði hins þýska ráðherra og lauk í gær, var undirrituð sérstök bókun um sæstrengsmál. Auk ráðherranna undirrituðu forstjóri Landsvirkjunar og fulltrúar HEW bókunina.

Í bókuninni er því lýst yfir að þessir aðilar muni hafa samstarf um heildarathugun á málinu. Gert er ráð fyrir að þeim aðilum sem sýnt hafa málinu áhuga á undanförnum árum, þar á meðal Icenet hópnum, verði boðin aðild að þeirri athugun.

Aðilar munu samkvæmt bókuninni yfirfara alla þætti sem geta haft áhrif á ákvörðun um hvort ráðist skuli í virkjanir á Íslandi til að framleiða orku til útflutnings. Fjölmargir þættir hafa áhrif á slíka ákvörðun, til dæmis tækni- og kostnaðarþróun næstu ára, reynslan af sæstrengjum milli Noregs og meginlandsins sem teknir verða í notkun árið 2003 og hugsanlegir orkuskattar í löndum Evróusambandsins. Slíkir skattar gætu bætt samkeppnisstöðu þeirrar raforku sem framleidd er á Íslandi.

Í bókuninni kemur fram að hér eftir sem hingað til verða bornir saman þeir kostir sem eru í boði í raforkusölu hverju sinni og hverjir þeirra skapa flest störf og skila mestu í þjóðarbúið.

Iðnaðarráðuneytið og Landsvirkjun lögðu sérstaka áherslu á að í heildarathuguninni yrði lagt mat á jákvæð áhrif raforkuflutnings um sæstreng á uppbyggingu orkuiðnaðar á Íslandi og nýtingu auðlindarinnar útfrá íslenskum hagsmunum. Ennfremur að lagt yrði mat á áhrif sæstrengs á möguleika aðila málsins til að uppfylla skilyrði Sameinuðu þjóðanna um lofttegundir sem valda gróðurhúsaáhrifum.

Reykjavík, 19. september 1996

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum