Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 1997 Matvælaráðuneytið

Friðun hrygningarþorsks á vetrarvertíð 1997

FRÉTTATILKYNNING

Friðun hrygningarþorsks á vetrarvertíð 1997



Ráðuneytið hefur gefið út reglugerð um friðun hrygningarþorsks á vetrarvertíð 1997. Samkvæmt reglugerð þessari, eru allar veiðar óheimilar á eftirgreindum svæðum frá kl. 20.00 þriðjudaginn 8. apríl 1997 til kl. 10.00 árdegis miðvikudaginn 23. apríl 1997:

1. Fyrir Suður- og Vesturlandi á svæði sem að austan markast af línu sem dregin er réttvísandi í austur frá Stokksnesi og að vestan af línu, sem dregin er réttvísandi 250° frá Skorarvita. Frá Stokksnesi markast svæðið að utan af línu, sem dregin er í 12 sjómílna fjarlægð frá viðmiðunarlínu í punkt í 12 sjómílna fjarlægð suður frá Lundadrangi. Þaðan er línan dregin í punkt 63°08'N og 19°57'V og þaðan í 4ra sjómílna fjarlægð frá Surtsey í punkt í 5 sjómílna fjarlægð suður frá Geirfugladrangi. Þaðan er línan dregin í 5 sjómílna fjarlægð utan við Geirfugladrang í punkt 64°43'7 N og 24°12'V og þaðan í 64°43'7 N og 24°26'V og síðan í punkt í 24,3 sjómílna fjarlægð 250° réttvísandi frá Skorarvita.
2. Fyrir Suðvesturlandi á svæði, sem að austan markast af 21°V, að sunnan af 63°05'N og að vestan af línu, sem dregin er réttvísandi í suðvestur frá Reykjanesi (aukavita).
3. Innan þriggja sjómílna fjarlægðar frá fjörumarki meginlandsins fyrir Norður- og Austurlandi frá línu réttvísandi norður frá Horni að línu réttvísandi í austur frá Stokksnesi.

Þrátt fyrir ofangreint bann eru grásleppuveiðar, innfjarðarækjuveiðar, hörpudisksveiðar og ígulkeraveiðar heimilar þeim, sem tilskilin leyfi hafa til þeirra veiða innan svæðisins. Þá er og heimilt að stunda rauðmagaveiðar á grynnra vatni en 10 föðmum á innanverðum Faxaflóa, innan línu, sem dregin er frá Laugarnesi um Engeyjarvita 7-baujuna; þaðan er lína dregin um 6-baujuna í Hraunsnes vestan Straumsvíkur.

Reglugerð þessi er efnislega samhljóða reglugerð þeirri er gefin var út fyrir vetrarvertíðina 1996 að öðru leyti en því að bannið tekur gildi 6 sólarhringum fyrr í ár og lýkur þar af leiðandi fyrr. Er þessi breyting gerð að tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar en í umsögn stofnunarinnar segir að þrátt fyrir nokkurn breytileika þá virðist sem hápunktur hrygningarinnar sé á tiltölulega svipuðum tíma árin 1994, 1995 og 1996, þ.e. frá annarri viku fram í byrjun fjórðu viku aprílmánaðar.
Sjávarútvegsráðuneytið,
7. febrúar 1997


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum